Í kjölfar rafvæðingar fiskimjölsverksmiða á Austurlandi hefur álag á svæðisbundna flutningskerfið aukist mikið. Til að bregðast við því og auka flutningsgetu kerfisins var ákveðið að spennuhækka línur úr 66 kV í 132 kV , með þeim ávinningi að möguleg innmötun á Austfjarðakerfið mun aukast um rúmlega 20 MW.
Fyrsti liður aðgerðaráætlunar Landsnets í spennuhækkun hringtengingarinnar Hryggstekkur-Stuðlar-Eskifjörður-Eyvindará var að spennuhækka línuna frá Hryggstekk í Skriðdal að Stuðlum í Reyðarfirði, ásamt því að endurbæta tengivirkið þar og var sá áfangi tekinn í notkun í ársbyrjun 2014.
Síðari liður verkefnisins er spennuhækkun frá Stuðlum að Eyvindará við Egilsstaði sem kallar á byggingu nýs tengivirkis á Eskifirði með fjórum 132 kV rofum og tveim spennum, uppsetningu tveggja 132 kV aflrofa á Eyvindará og breytingar á tengivirki á Stuðlum. Jafnframt er búið er að skipta út 66 kV strengendum fyrir 132 kV strengi í Stuðlalínu 2 og Eskifjarðarlínu 1.
Ávinningur af verkefninu er að möguleg innmötun á Austfjarðarkerfið eykst en samkvæmt þingsályktunartillögu frá 2016 að aðgerðaráætlun stjórnvalda í orkuskiptum eiga raforkuinnviðir fyrir frekari rafvæðingu fiskimjölsverksmiðja að vera tilbúnir fyrir 2020 og fellur verkefnið að því markmiði.